
Síðasta úthlutun ferðastyrkja ársins 2025 fór fram fyrr í mánuðinum. Alls bárust 19 umsóknir að upphæð 4.825.000 kr., og ákvað úthlutunarnefnd að úthluta samtals 2.900.000 kr. til 10 verkefna.
Misþyrming – Tónleikaferðalag um Evrópu – 300.000 kr.
Devine Defilement – Tónleikaferðalag um Evrópu – 375.000 kr.
John William Grant – Tónleikaferðalag á Spáni – 75.000 kr.
ADHD – Tónleikaferðalag í Þýskalandi og Sviss – 300.000 kr.
Árstíðir – Tónleikaferðalag um Evrópu – 375.000 kr.
Oyama – Tónleikar í Danmörku og Þýskalandi – 450.000 kr.
Inspector Spacetime – Eurosonic tónlistarhátíðin – 375.000 kr.
Volcanova – Tónlistarhátíðin Arctic Sounds á Grænlandi – 400.000 kr.
Eydís Evensen – Nordic Next í New York – 100.000 kr.
Elín Hall – Eurosonic tónlistarhátíðin – 150.000 kr.
Þar með lýkur úthlutunum Tónlistarsjóðs á árinu 2025, en sjóðurinn veitti alls 196.528.000 kr. til 223 verkefna á árinu. Af þeirri upphæð var 77.033.000 kr. úthlutað í fyrri úthlutun sjóðsins í janúar og 56.335.000 kr. í seinni úthlutun í júní. Útflutningsdeildin veitti jafnframt ferðastyrki á tveggja mánaða fresti, alls 20.650.000 kr., og að auki voru 13 verkefni með gilda langtímasamninga við sjóðinn sem hlutu samtals 42.500.000 kr.

„Nýlegar breytingar á Tónlistarsjóði endurspegla mikilvæga viðurkenningu á því að styrkja þarf vistkerfi tónlistar í heild sinni, enda vinna allir hlutar þess saman að því að efla íslenska tónlist“ segir María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar. „Tónlistargeirinn skapar gífurleg verðmæti – veraldleg, samfélagsleg og menningarleg – og því er fjármagni sem veitt er í sjóðinn vel varið. Árangurshlutfall umsókna árið 2025 var þó einungis 16%, sem er alltof lágt, og sýnir skýrt þörfina fyrir aukið fjármagn svo fleiri verkefni fái brautargengi. Við óskum styrkhöfum ársins innilega til hamingju!“
Í tengslum við úthlutanirnar hélt Tónlistarmiðstöð fræðsluviðburði um sjóðinn, víða um land, og vinnustofur í umsóknaskrifum auk þess sem að miðstöðin stóð fyrir tveimur viðburðum þar sem styrkhafar komu saman og fögnuðu í sal miðstöðvarinnar. Það er alltaf jafn ánægjulegt að fá að taka á móti tónlistarfólki hér í húsi og fagna þeirri gríðarlegu grósku sem einkennir tónlistarsamfélagið okkar. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar vel valdar myndir frá þessum samverustundum.
Áfram íslensk tónlist!














