Tónlistarsjóður veitir tæplega 92 milljónum til 80 verkefna í fyrri úthlutun ársins 2026

12 January 2026

Fimmtudaginn 8. janúar hélt Tónlistarmiðstöð móttöku fyrir styrkhafa fyrri úthlutunar Tónlistarsjóðs 2026. Þar komu saman tónlistarfólk, fagaðilar, fulltrúar sjóðsins og aðrir gestir til að fagna úthlutuninni, þeirri fjórðu frá stofnun sjóðsins árið 2024. Alls bárust sjóðnum 342 umsóknir en til úthlutunar voru rétt tæpar 92 milljónir og var þeim veitt til 80 verkefna. 

Nýafstaðin úthlutun Tónlistarsjóðs efldist til muna með 11 m.kr. framlagi frá Reykjavíkurborg. Féð kom úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðssonar, sem stofnaður var árið 1908 en hefur nú verið slitið. Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins var markmið sjóðsins að tryggja íbúum höfuðstaðarins ókeypis, eða með vægum kjörum, aðgang að góðri tónlist við almenningshæfi. 

Til að fylgja þeirri stefnu rann fjármagnið í deild innviða- og þróunar hjá Tónlistarsjóði. Áhersla var lögð á tónleikahald fyrir almenning á tónleikastöðum og tónlistarhátíðum í Reykjavík, auk þess sem fjórðungur upphæðarinnar rann til verkefna fyrir börn.

“Það er mikið fagnaðarefni að fjármunum Guðjóns heitins sé loks komið í réttan farveg eftir um 110 ár, reykvísku tónlistarumhverfi og almenningi til heilla.” segir Ása Dýradóttir, verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavík. 

“Tilgangur deildar þróunar og innviða hjá Tónlistarsjóði talaði sterkt til markmiða Músíksjóðs Guðjóns, og var það lukka að geta sameinað krafta okkar með Tónlistarsjóði hvað varðar úthlutun.”

Emilíana Torrini og Lovísa Elísabet Sigurðardóttir spila fyrir gesti

‍María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar setti viðburðinn, bauð gesti og styrkþega velkomna fór yfir viðburðarríkt tónlistarár 2025. Hún ræddi þann mikla meðbyr sem íslensk tónlist nýtur um þessar mundir og nefndi sem dæmi eftirtektarverðan árangur listafólks á borð við Laufeyju og Víking Heiðar á alþjóðavettvangi. María lagði þó áherslu á að sá árangur ætti rætur sínar í öflugu starfi hér heima. Hún nefndi þúsundir tónleika sem haldnir voru á árinu, mikla útgáfu nýrra verka og vaxandi fjölda óháðra tónlistarfyrirtækja sem styrkja innviði geirans.

„Það er ótrúleg gróska í íslenskri tónlist um þessar mundir og krafturinn hvetjandi,“ sagði María Rut. „Starf okkar hjá Tónlistarmiðstöð snýst fyrst og fremst um að þjóna þessum öfluga hópi og rækta umhverfið þannig að tónlistarfólk hafi svigrúm og stuðning til að skapa og koma verkum sínum á framfæri.“

‍Styrkþegar

Emilíana Torrini og Lovísa Elísabet Sigurðardóttir

Við athöfnina fluttu Emilíana Torrini og Lay Low (Lovísa Elísabet Sigurðardóttir) lögin „Sunny Road“ og „Miss Flower“. Tónlistarkonurnar áttu það sameiginlegt að hafa hlotið stuðning úr sjóðnum að þessu sinni, en þær fengu báðar hæstu styrki ársins úr deild frumsköpunar og útgáfu, tvær milljónir króna hvor.

Næsthæstu styrkina úr deild frumsköpunar og útgáfu hlutu Árni Vilhjálmsson og Dagur Kristinn, 1,7 milljónir króna hvor.

Laufey Jónsdóttir, meðlimur Brák, Hekla Finnsdóttir og Anna Elísabet Sigurðardóttir, meðlimir Elju taka á móti blómum frá Sigrúnu Brynju Einarsdóttur ráðuneytisstjóra Menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneytis

Listasamsteypan marvaða hlaut hæsta verkefnastyrkinn úr deild lifandi flutnings, eða 1.5 m.kr., fyrir tilraunaóperuna LOVE. Að auki hlutu Sambandið óperukompaní, Sinfóníuhljómsveit Austurlands og Þórunn Guðmundsdóttir öll verkefnastyrki upp á 1 m.kr hvor. Einnig voru gerðir tveir nýir langtímasamningar til tveggja ára (2026–2027) og hlaut Elja kammersveit 3,5 milljónir króna á ári og Barokkbandið Brák fær 2,5 milljónir á ári.

Sigrún Brynja Einarsdóttir veitir Pétri Oddbergi Heimissyni, framkvæmdastjóra Jazzhátíðar, Kristjáni Frey, rokkstjóra Aldrei fór ég suður og Hirti Páli Eggertssyni, fyrir hönd Seiglu, blómvendi. 

Hæstu viðskiptastyrki úr deild þróunar og innviða, 3. m.kr. hvor, fengu Austurbæjarbíó og Sumartónleikar Skálholtskirkju. Þá hlutu Hannesarholt og Reykjavík Early Music Festival 2 m.kr. í styrk hvort. 

Þrír langtímasamningar voru veittir. Jazzhátíð Reykjavíkur fær 4 m.kr. á ári og tónlistarhátíðin Seigla 2 m.kr., báðar til þriggja ára. Þá fær rokkhátíðin Aldrei fór ég suður 3 m.kr. á ári til næstu tveggja ára.

Aukafjármagninu úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðssonar var veitt til Austurbæjarbíós, Hannesarholts, Tónlistarhátíðarinnar Seiglu og Jazzhátíðar Reykjavíkur. 

Borgarstjóri Reykjavíkur, Heiða Björg Hilmisdóttir, veitir Steinþóri Helga Arnsteinssyni, f.h. Austurbæjarbíós, Pétri Oddbergi, framkvæmdastjóra Jazzhátíðar, Magnúsi Halli, f.h. Hannesarholts og Hirti Páli, f.h. Seiglu, blómvendi. 

Tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti

Ásgeir, Elín Hall og Daði Freyr hlutu hæstu markaðsstyrkina úr útflutningsdeild eða 1,7 milljónir króna hvert. Að auki hlutu Björg Brjánsdóttir og JFDR markaðsstyrki.

Myndir

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar